A/V hlutfall
Þegar horft er til langs tíma í fjárfestingum er A/V hlutfallið ágæt vísbending um ávöxtun sem vænta má af greiddum arði vegna hlutabréfaeignar. Kennitalan stendur fyrir hlutfallið á milli árlegs arðs og markaðsverðs hlutabréfa. Kennitalan er mælikvarði á það fjárstreymi sem viðkomandi fær fyrir hverja krónu sem fjárfest er fyrir.
Algengt er að yngri fyrirtæki sem standa í miklum fjárfestingum og uppbyggingu hafi lágt A/V hlutfall. Hátt A/V hlutfall getur verið túlkað á þá vegu að hlutabréf viðkomandi félags séu of lágt metin og öfugt. Það er að lágt A/V hlutfall gefi vísbendingu um að hlutabréf séu of hátt metin.
Einnig getur hátt A/V hlutfall verið vísbending um erfiða tíma hjá fyrirtæki og ef til vill sé von á lægri arðgreiðslum en áður.
Formúla A/V hlutfalls er: A/V hlutfall = arðgreiðsla / markaðsvirði. Á ensku nefnist A/V hlutfallið Dividend Yield eða Price to earnings ratio: P/E..
Afleiðusamningur
Þegar rætt er um afleiðusamninga er átt við samning þar sem uppgjörsákvæði byggja á þróun ákveðinna þátta á borð við vaxta, gengis gjaldmiðla, gengi bréfa í tilteknu hlutafélagi, þróun ákveðinnar vísitölu eða verðs á hrávörum. Eins og gefur að skilja byggir því virði slíks samnings á þróun þeirra undirliggjandi þátta sem um ræðir frá samningsdegi til uppgjörsdags.
Dæmi um afleiður eru framvirkir samningar, valréttur (kaup- og söluréttur), vaxtaskiptasamningar og staðlaðir framvirkir samningar. Á ensku nefnist afleiðusamningur Derivative.
Annuitet
Um er að ræða danskt orð yfir jafngreiðslur sem þó nokkuð er notað í íslensku og er gjarnan talað um annuitetslán sem á góðri íslensku nefnist jafngreiðslulán. Á ensku er annuitet nefnt annuity.
Arðsemi eigin fjár
Sýnir hvað eigendur hagnast mikið á rekstri fyrirtækisins eða hversu mikinn hagnað fyrirtækið skilar miðað við það fjármagn sem hluthafar hafa lagt í það. Arðsemi eigin fjár er til dæmis hægt að nota til að bera saman arðsemi eignar í fyrirtækinu við útlánsvexti banka eða aðra fjárfestingarkosti. Kennitalan er einnig nytsamleg við samanburð á fyrirtækjum í sömu atvinnugrein. Arðsemi eigin fjár nefnist á ensku Return on Equity. Formúla fyrir arðsemi eigin fjár er eftirfarandi:
Arðsemi eigin fjár = Hagnaður eftir skatta / Meðalstaða eigin fjár.
Arður
Stjórn félags ákveður árlega hversu mikinn hluta af hagnaði félagsins skuli greiða hluthöfum í arð. Arður er jafnan gefinn upp í krónum á hlut. Hægt er að greiða arð í peningum, með bréfum í félaginu sjálfu eða með bréfum í öðru félagi. Algengt er til dæmis við samruna félaga að hluthöfum sé greiddur arður með bréfum í sameinuðu félagi. Allur gangur er á upphæðum arðgreiðslna og því hvernig hann er greiddur. Á ensku nefnist arður Dividend.
Áhætta
Þegar talað er um áhættu í viðskiptum með verðbréf er vísað til þess að mögulega geti ávöxtun ekki orðið sú sem vænst var til. Það sem haft getur áhrif á ávöxtun eru til dæmis sveiflur á verði, vextir, verðbólga, taprekstur eða vanskil. Á ensku nefnist áhætta Risk.
Áhættudreifing
Til að dreifa áhættu er fjárfest í mörgum tegundum verðbréfa eða gjaldmiðla. Með því er áhættunni dreift þannig að t.d. verðhrun á hlutabréfum í einu fyrirtæki hafi ekki afgerandi áhrif á ávöxtun verðbréfasafnsins í heild. Sama gildir um myntir að ef myntsafn er vel dreift þá hefur hrun eins gjaldmiðils af nokkrum í safninu ekki afgerandi áhrif.
Mest áhætta fylgir því að binda allt fé í einni tegund verðbréfa, til dæmis hlutabréfum í ákveðnu fyrirtæki en minni áhætta er að dreifa safninu sem allra mest. Á ensku er áhættudreifing nefnd Risk Diversification.
Áhættufjármunir
Þær eignir fyrirtækis eða einstaklings sem bera mikla áhættu eru oft flokkaðir sérstaklega sem áhættufjármunir. Dæmi um slíkt eru hlutabréf í nýju og óreyndu fyrirtæki eða aðrar svipaðar eignir sem eru í mikilli áhættu hvað varðar ávöxtun. Á ensku nefnist slíkt Risky Asset.
Ársreikningur
Árlega er tekin saman fjárhagsleg staða félags og gefinn út ársreikningur sem inniheldur efnahagsreikning (yfirlit yfir eignir og skuldir félagsins í lok árs) og rekstrarreikning (yfirlit yfir tekjur og gjöld á árinu). Algengt er þó að skráð félög skili einnig milliuppgjörum fyrir hvern ársfjórðung. Ársreikningar skráðra hlutafélaga er að finna hjá Kauphöll Íslands, á vefsíðu viðkomandi félags og oft á atburðum á vegum félagsins eða kynningum hvers konar.
Ársskýrsla
Á hverju ári gefa stjórnendur fyrirtækja hluthöfum félagsins skýrslu yfir heildarstöðu mála í rekstrinum. Sú skýrsla nefnist ársskýrsla. Í slíkum skýrslum er að finna ávarp formanns stjórnar, framkvæmdastjóra, oft einnig fjármálastjóra. Farið er yfir reksturinn á liðnu ári, hvaða markmiðum hafi verið náð og hverjum ekki, hvað sé framundan í rekstrinum, væntingar og horfur. Skýrslurnar eru svo oftast sendar hluthöfum og/eða afhentar á aðalfundi félagsins.
Ávöxtun
Ávöxtun getur verið margs konar en merkir alltaf að viðkomandi hafi haft meira út úr viðskiptunum en hann lagði í þau. Hafi viðkomandi hins vegar fengið minna út úr viðskiptunum en hann lagði í þau má tala um neikvæða ávöxtun. Dæmi um ávöxtun er ef hlutabréf er keypt og selt aftur á hærra verði eða að keyptur sé gjaldeyrir og seldur aftur á hærra verði. Arður sem fyrirtæki greiðir hluthöfum sínum telst einnig til ávöxtunar. Enska orðið Return er notað um ávöxtun almennt.
Ávöxtunarkrafa
Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða kröfu sem gerð til ávöxtunar á fé á ársgrundvelli. Ávöxtunarkrafa er hvað oftast notuð í samhengi við skuldabréf og lýsir þeirri kröfu sem kaupandi skuldabréfs gerir til ávöxtunar á fé sínu. Ef fjárfestir á 1 milljón og býst við að hún verði orðin að 1,5 milljónum eftir eitt ár þá er ávöxtunarkrafa hans 50%. Á ensku nefnist ávöxtunarkrafa Yield to Maturity og vísar til þeirra ávöxtunar sem næst þangað til skuldabréf er á gjalddaga.
EBITDA
Skammstöfunin EBITDA stendur fyrir Earnings Before Interest, Taxes, Depreciation and Amortization eða hagnað fyrir fjármagnsliði, skatta, afskrift fastafjármuna og viðskiptavildar. Til styttingar er talan gjarnan nefnd hagnaður fyrir afskriftir. Hún er mikið notuð sem mælikvarði á framlegð fyrirtækja og segir til um hve miklu reksturinn er að skila, óháð fjármögnun hans og skattaumhverfi. Hægt er að reikna nettóframlegð með því að deila veltu, án söluhagnaðar, upp í EBITDA.
Eigin hlutir
Hlutafélag hérlendis getur átt hlutabréf í sjálfu sér en þó aldrei meira en 10%. Eigin hlutum fylgir ekki atkvæðisréttur á aðalfundi. Mjög misjafnt er hversu mikinn hlut félög eiga í sjálfum sér.
Eiginfjárhlutfall
Þessari kennitölu er ætlað að sýna fjárhagslegan styrk fyrirtækis. Eiginfjárhlutfall er hlutfall eigin fjár af heildarfjármagni fyrirtækis. Eiginfjárhlutfall nefnist á ensku Equity Ratio. Hlutfallið er reiknað úr uppgjörsgögnum á eftirfarandi hátt:
Eiginfjárhlutfall = Eigið fé / Heildareignir.
Eingreiðslubréf
Skuldabréf sem endurgreiðist með einni greiðslu í lok lánstímans er nefnt eingreiðslubréf. Þá er höfuðstóll greiddur til baka ásamt vöxtum og vaxtavöxtum í einu lagi. Slík bréf eru einnig nefnd kúlubréf. Enska orðið yfir eingreiðslubréf er Bullet Bond.
Fasteignatryggt skuldabréf
Stærsta lán flestra einstaklinga er það lán sem þeir taka til kaupa á húsnæði. Nefnist slíkt lán íbúðarlán og er fasteignatryggt skuldabréf. Það merkir að fyrir skuldabréfinu er veð í fasteign, oftast í því húsnæði fjármagnað er með skuldabréfinu. Falli lánið í vanskil getur eigandi skuldabréfsins gengið að veðinu (fasteigninni) og fengið þannig fé sitt til baka. Með þessu er áhættan takmörkuð fyrir þann sem lánar fé til fasteignakaupa. Fasteignatryggt skuldabréf er nefnt Mortage Bond á ensku.
Fastvaxtaskuldabréf
Ein tegund skuldabréfa er sú sem ber fasta vexti allan líftíma skuldabréfsins. Það merkir í raun að vaxtaprófsenta breytist ekki þótt að vextir breytist á markaði. Í daglegu tali er þetta nefnt að „það séu fastir vextir allan tímann“. Hagræði sem þessu fylgir er að óvissan um vaxtagreiðslur er minni og hægt að sjá nokkuð vel hvað þurfi að borga af skuldabréfinu út líftíma þess. Á ensku er fastvaxtaskuldabréf Fixed Interest Bond.
Fjárfestir
Sá sem fjárfestir í verðbréfum eða öðru nefnist fjárfestir en til þess hóps teljast einstaklingar, fyrirtæki, sjóðir og hið opinbera. Algengt er að fjárfestar starfi saman í hópum og fari saman með meirihluta í hlutafélögum. Á ensku er fjárfestir Investor.
Framvirkur samningur
Oft er talað um framvirka samninga í samhengi við hlutabréf. Slíkur samningur er afleiðusamningur sem kveður á um skyldu samningsaðila til að kaupa eða selja tiltekna eign fyrir ákveðið verð á fyrir fram ákveðnum uppgjörsdegi. Með afleiðusamningi er átt við samning sem byggir á einhverjum undirliggjandi þáttum á borð við gengi hlutabréfa, þróun gengis á tiltekinni mynt, o.fl. Á ensku nefnist framvirkur samningur Futures.
Gengi hlutabréfa
Þegar rætt er um gengi félags á markaði er átt við það verð sem bréf þess hafa gengið kaupum og sölum á. Ef spurt er hvað gengið sé núna þá er svarið það verð sem síðustu viðskipti voru með bréfin á. Á ensku er gengið einfaldlega nefnt Price en einnig er talað um að fá Quote sem þýðir að fá upp gefið verð.
Hafa ber í huga að gengið er markaðsverð hverrar krónu af nafnvirði hlutabréfa. Það þýðir að ef nafnverð hvers hlutar er 10 krónur og gengið 5, þá kostar hver hlutur í félaginu 50 krónur.
Gengi skuldabréfa
Þegar rætt er um skuldabréf og gengi þeirra er átt við hlutfallið á milli markaðsverðs bréfsins og nafnverðs þess. Ef til dæmis nafnverð skuldabréfs er 100.000 og markaðsverð þess er 150.000 er sagt að gengið sé 1,5. Mögulegt er að selja skuldabréfið með afföllum á til dæmis 80.000 og þá væri gengið 0,8. Á ensku er gengi skuldabréfa Bond Price eða Clean Price.
Hagnaður
Jákvæður mismunur tekna og gjalda nefnist hagnaður. Þó er mikilvægt að skoða hagnað í hlutfalli við stærð og umfang fyrirtækisins og hvernig reksturinn hefur verið í fortíð. Til eru margs konar kennitölur til að mæla árangur fyrirtækja þar sem horft er til fleiri þátta en hagnaðar eins og sér. Á ensku nefnist hagnaður Earnings eða Profit.
Hagnaður á hlut
Sýnir hagnað á hvern útistandandi hlut í félagi. Þessi tala er gagnleg til að bera saman þróun milli ára eða tímabila innan félags en síður við önnur félög þar sem mjög mismunandi samsetning er á fjármögnun þeirra. Formúlan fyrir hagnaði á hlut er: hagnaður á hlut = hagnaður eftir skatta / meðalfjöldi hluta yfir tímabilið. Hagnaður á hlut nefnist á ensku Earnings per Share
Hlutafjárútboð
Þegar fyrirtæki er skráð á markað í fyrsta sinn er sjálfstæður matsaðili fenginn til þess að verðmeta fyrirtækið og fæst þannig út ákveðið útboðsgengi sem er söluverð nýju hlutanna til fjárfesta. Að því loknu ákvarðast gengi hlutanna í frjálsum viðskiptum á markaði. Á ensku nefnist slíkt hlutafjárútboð Initial Public Offering, skammstafað IPO.
Hlutafélög sem nú þegar eru skráð á markað geta sótt aukið fjármagn til fjárfesta með því að auka hlutafé og selja á markaði til fjárfesta. Á ensku nefnist slíkt Stock Offering.
Hlutafé
Í hverju hlutafélagi er ákveðið hlutafé sem er það fé sem eigendur félagsins hafa lagt til. Ákveðinn hluti þess fjár er síðan skráður á markað. Gefin eru út verðbréf sem lýsa yfir eignarhlut viðkomandi í þessu hlutafé og nefnast hlutabréf. Nú til dags er verðbréfaeign skráð rafrænt og geymd á rafrænum vörslureikningum fjárfesta. Á ensku er hlutafé nefnt Stock.
Hlutafélag
Hlutafélag er sjálfstæður lögaðili, sem merkir að félagið er sjálft ábyrgt fyrir skuldbindingum sínum og eigendur þess bera takmarkaða ábyrgð. Hluthafar eru eigendur hlutafélaga. Fari félagið í þrot getur hluthafi aldrei tapað meiru en sem nemur eign hans í hlutafélaginu. Skammstöfunin HF. er notuð fyrir Hlutafélög og þarf að gæta þess að rugla hlutafélagi ekki saman við einkahlutafélag, sem ber skammstöfunina EHF. Breytilegt er hvert enska heitið á hlutafélagi er eftir löndum. Til dæmis er hlutafélag nefnt Corporation í Bandaríkjunum en Limited Company í Bretlandi.
Höfuðstóll
Þegar rætt er um lán eða skuldabréf er oft talað um höfuðstól lánsins eða skuldabréfsins. Þá er átt við þá upphæð skuldarinnar sem lántakinn á eftir að greiða, að vöxtum undanskildum. Þannig er einnig rætt um að greiða inn á höfuðstól láns en við það lækka þær upphæðir sem lántakinn greiðir eftir það. Í samhengi við skuldabréf er höfuðstóll það sama og nafnverð skuldabréfsins en auk þess þarf að greiða vexti af skuldabréfinu og einnig verðbætur, sé það verðtryggt. Höfuðstóll er á ensku Principal.
Innra virði
Sýnir virði hlutabréfa félags samkvæmt efnahagsreikningi. Margir fjárfestar telja að bókfært eigið fé sé góð vísbending um verðmæti hlutafélags og eru því reiðubúnir að kaupa eða selja hlutabréf í því félagi á gengi sem væri svipað innra virði félagsins. Formúla fyrir innra virði er: innra virði = eigið fé / hlutafé.
Jafngreiðslubréf
Ýmsar tegundir skuldabréfa eru til og ein þeirra nefnist jafngreiðslubréf. Einkenni þeirrar tegundar er að lánið greiðist til baka með jöfnum greiðslum. Vaxtagreiðslur fara lækkandi eftir því sem líður á lánstíma skuldabréfsins en hluti höfuðstóls af greiðslunni fer hækkandi. Algengt er að kalla slík skuldabréf annuitetsbréf með vísun í dönsku. Á ensku nefnast jafngreiðslubréf annuity.
Kaupréttur
Kaupréttur er réttur til að kaupa vöru, verðbréf eða gjaldeyri á fyrirfram ákveðnu verði á ákveðnum degi eða fyrir ákveðinn dag. Oft er talað um kauprétt forstjóra og annarra yfirmanna og að kaupaukar svonefndir felist í kauprétti á hlutabréfum í viðkomandi félagi. Slíkur samningur er bindandi fyrir þann sem gefur hann út en kaupandi hans getur valið hvort hann nýtir réttinn eða ekki. Þannig geta stjórnendur sem hafa kauprétt á hlutabréfum í því félagi sem þeir stjórna ákveðið hvort þeir kaupi bréfin eða ekki. Hafi gengi félagsins hækkað á tímabilinu geta yfirmennirnir sem eiga kaupréttinn hagnast með því að nýta kaupréttinn. Samningar um kauprétt geta gengið kaupum og sölum á markaði. Á ensku nefnist kaupréttur Call Option.
Kauptilboð
Þegar fjárfestir hyggst kaupa verðbréf leggur hann inn svonefnt kauptilboð. Þau kauptilboð sem birt eru í markaðsyfirlitum eru hagstæðustu tilboðin hverju sinni, þ.e. hæsta verð sem fjárfestir er reiðubúinn að greiða fyrir viðkomandi hluti. Þá geta þeir sem eiga hluti í tilteknu félagi séð að til sé kaupandi sem sé reiðubúinn að greiða tiltekið verð fyrir hlutina. Hagstæðasta kauptilboð er alla jafna lægra en hagstæðasta sölutilboð. Á ensku nefnast kauptilboð Bid eða Bid Price.
Kennitölur
Ýmsir mælikvarðar eru til sem meta árangur og stöðu fyrirtækja. Kennitölur eru slíkir mælikvarðar og byggja þær á markaðs- og uppgjörsgögnum. Kennitölum er ætlað að gefa vísbendingar um fjárhag eða arðsemi fyrirtækis. Kennitölur í fjármálum eiga ekkert skylt við þær kennitölur sem Hagstofa Íslands úthlutar til einstaklinga og fyrirtækja. Á ensku nefnist kennitala Ratio.
Kennitölur ársreikninga
Þær kennitölur sem helst er notast við til þess að meta fyrirtæki,eru þessar:
-Arðsemi Eigin Fjár sýnir okkur hversu vel fyrirtæki er að hagnast á rekstrinum. Því hærra sem hlutfallið er því betra. Hagnaðurinn er því metinn út frá Eigin Fé fyrirtækisins. Þá í raun erum við að skoða hversu mikið Eigið fé er að aukast á árinu.
Arðsemi Eigin Fjár reiknast svona: Hagnaður ársins *100 / Eigið fé í ársbyrjun = Arðsemi Eigin Fjár
-Veltufjárhlutfall, sýnir okkur hversu líklegt fyrirtækið er til að standa straum af skuldum sem þarf að greiðast á komandi ári. Þá er skoðað hlutfall þeirra krafa sem við rukkum inn á næsta ári og þeirra skulda sem við munum greiða á komandi ári. Því hærra sem hlutfallið er þeim mun líklegra er að við munum geta staðið í skilum.
Veltufjárhlutfall reiknast svona: Veltufjármunir (skammtímaeignir) / Skammtímaskuldir (skuldir sem við greiðum á innan við ári) = Veltufjárhlutfall
-Eiginfjárhlutfall segir okkur hversu mikill hluti af heildarfjármagninu sem bundið er í fyrirtækinu kemur frá eigendum og hversu mikið er lánsfé. Því hærra sem eiginfjárhlutfallið er því meiri styrkur er í fyrirtækinu, þ.e. þá er hluti lánsfjár minni heldur en eign eigandanna.
Eiginfjárhlutfall reiknast svona: Eigið fé 1/1 *100 / skuldir + eigið fé = Eiginfjárhlutfall
-EBITDA er sú kennitala sem helst er stuðst við þegar meta á söluverð fyrirtækja. EBITDA er hagnaður fyrirtækisins þegar á eftir að taka tillit til afskrifta, fjármagnsgjalda og skatta.
LIBOR
Skammstöfunin merkir London Interbank Offered Rate sem þýðir millibankavextir í London en það er sú vaxtaprósenta sem stærstu alþjóðlegu bankarnir í London nota þegar þeir veita lán sín á milli. Millibankavextir eru til á öllum millibankamörkuðum og bera gjarnan svipaðar skammstafanir. Þannig heita vextir á millibankamarkaði í Reykjavík REIBOR.
Lánstími
Lánstími vísar til þess þess hvenær höfuðstóll skuldabréfs skuli vera endurgreiddur að fullu (lok lánstíma). Lánstími getur verið mjög breytilegur og fer eftir forsendum skuldabréfsins. Á ensku nefnist lánstími Maturity.
Markaðsvirði
Heildarverðmæti flokks verðbréfa á borð við öll hlutabréf í tilteknu fyrirtæki eða heildarverðmæti allra hlutafélaga í kauphöll. En líkt og með markaðsverð er orðið vísun til þess sem kaupendur á markaði eru reiðubúnir að greiða fyrir safn bréfa. Nafnvirði þarf ekki að breytast til að markaðsvirði breytist. Mikilvægt er að rugla ekki saman markaðsverði og markaðsvirði.
Milliuppgjör
Skráð félög á markaði skila að öllu jöfnu af sér svonefndum árshlutaskýrslum eða milliuppgjörum sem taka til 3 mánaða tímabils í rekstri félagsins. Þessar skýrslur eru yfirleitt þrjár á ári. Að ársskýrslunni meðtalinni fá fjárfestar því skýra mynd af fjárhagslegri stöðu félagsins fjórum sinnum á ári hverju. Milliuppgjör skráðra hlutafélaga er að finna hjá Kauphöll Íslands, á vefsíðu viðkomandi félags og oft á atburðum á vegum félagsins eða kynningum hvers konar.
Nafnverð
Nafnverð, sem einnig er nefnt nafnvirði, vísar til skráðs virðis verðbréfa. Áður en hlutabréfaskráning varð rafræn var nafnverð prentað á hlutabréfin. Ef hver hlutur er til dæmis 100 kr að nafnvirði og gengi er nú 2, þá er markaðvirði hlutarins 200 kr. Fjárfestir getur reiknað verðmæti síns hlutar með því að margfalda nafnverð hans með gengi síðustu viðskipta. Á Íslandi er algengast að nafnverð hvers hlutar sé 1 króna. Á ensku er nafnverð kallað Nominal Value.
Núvirði
Fyrir flestum er það meira virði að fá pening afhentan í dag en sömu upphæð eftir eitt ár. Þess vegna er erfitt að bera saman upphæðir sem verða greiddar á mismunandi tímum. Núvirði nefnist það, þegar ávöxtunarkröfu er beitt til að meta og bera saman greiðslur í framtíðinni. Ávöxtunarkrafa er einfaldlega sú ávöxtun sem fjárfestir býst við að fá annars staðar.
Ef fjárfestir getur valið um að fá 110 krónur í dag eða 120 krónur eftir eitt ár, getur hann beitt núvirði til að taka ákvörðun. Sé ávöxtunarkrafa hans 20% á ári er núvirði 120 króna greiðslunnar aðeins 120 / 1,2 = 100 krónur svo hann velur að fá peninginn strax.
Núvirði er á ensku Present Value
Óskráð hlutabréf
Hlutabréf í hlutafélagi sem ekki er skráð á skipulegan tilboðsmarkað á borð við Kauphöll Íslands. Á ensku nefnast slík hlutabréf Over The Counter Shares.
Óskráð hlutafélag
Hlutafélag sem ekki er skráð á skipulegan tilboðsmarkað á borð við Kauphöll Íslands. Flest hlutafélög eru óskráð. Á ensku nefnast slík félög Over The Counter Companies.
Peningamarkaður
Verðbréf sem eru skammtímabréf á borð við ríkisvíxla, bankavíxla eða skammtímaskuldabréf ganga kaupum og sölum á svonefndum peningamarkaði, sem nefnist Money Market á ensku.
Q-Hlutfall
Q-hlutfall, sem er einnig nefnt V/I hlutfall, er notað til að bera saman markaðsverð félags og bókhaldslegt verðmæti þess. Ef Q-hlutfall er lægra en einn er markaðsverð lægra en eigið fé þess. Markaðurinn metur þá fyrirtækið undir bókhaldslegu verðmæti. Ef hlutfallið er hærra en einn er markaðsverð fyrirtækis hærra en sem nemur eigin fé þess. Markaðurinn er þá að meta verðmæti fyrirtækis hærra en sem nemur bókhaldslegu verðmæti. Formúla Q-hlutfalls er: Q-hlutfall = markaðsverð / innra virði.
REIBOR
Vextir á millibankamarkaði í Reykjavík þar sem bankar lána fé sín á milli eru nefndir REIBOR, sem er skammstöfun fyrir Reykjavík Interbank Offered Rate.
Raungengi
Í samhengi við gjaldmiðla er oft rætt um raungengi. Þegar rætt er um raungengi íslensku krónunnar er átt við gengisvísitölu krónunnar en þar kemur fram meðalverð krónunnar í öðrum gjaldmiðlum og búið er að leiðrétta miðað við verðbólgu í hverju landi. Á ensku er raungengi Real Exchange Rate.
Raunvextir
Vextir lúta sömu lögmálum og flest annað þegar verðbólga er annars vegar. Rætt er um nafnvexti annars vegar og raunvexti hins vegar. Hið síðarnefnda eru þeir vextir sem greiða þarf eftir að verðbólga er tekin með í spilið. Til mikillar einföldunar má segja að ef vextir á óverðtryggðu láni eru 10% og verðbólga er 3% þá séu raunvextir ekki nema 7%. En í raun eru raunvextir reiknaðir með eftirfarandi formúlu:
Raunvextir = (1 + nafnvextir) / (1 + verðbólga)
Í dæminu að ofan væru því raunvextir 6,79%. Í ljósi þess má sjá að þeir sem skulda óverðtryggt lán græða á mikilli verðbólgu en þeir sem hafa lánað óverðtryggð lán tapa á henni. Á ensku eru raunvextir Real Rate eða Real Yield.
Raunávöxtun
Þegar rætt er um ávöxtun er oft talað um nafnávöxtun og svo raunávöxtun. Hið síðarnefnda er ávöxtun umfram verðbólgu. Til mikillar einföldunar má segja að nafnávöxtun á ákveðnu tímabili sé til dæmis 10% og verðbólga á tímabilinu 3% þá er raunávöxtun samtals 7%. En í raun er raunávöxtun reiknuð með eftirfarandi formúlu:
Raunávöxtun = (1 + nafnávöxtun) / (1 + verðbólga)
Í dæminu að ofan væru því raunvextir 6,79%. Á ensku er raunávöxtun Real Return.
Skráð hlutabréf
Hlutabréf í hlutafélagi sem er skráð á markað nefnast skráð hlutabréf. Fyrirtæki eru skráð á skipulega tilboðsmarkaði á borð við Kauphöll Íslands þar sem skráð hlutabréf þeirra geta gengið kaupum og sölum. Andstæða skráðra bréfa eru óskráð bréf sem lesa má um í skilgreiningum. Á ensku eru skráð hlutabréf Stocks in a Registered Company.
Skuldabréf
Skuldabréf er skuldarviðurkenning sem greinir frá því að tekið hafi verið lán fyrir ákveðna upphæð. Sá sem tekur lánið lofar að greiða skuldina til baka samkvæmt ákveðnum skilmálum og greiða vexti eða annað sem tekið er fram í skuldabréfinu. Ýmsar leiðir eru færar við að tryggja þann sem lánar fyrir því að sá sem fær lánið gangi ekki að baki orða sinna. Hægt er að leggja fasteign að veði eða tilgreina ábyrgðarmenn fyrir skuldinni. Margar tegundir skuldabréfa eru til. Á ensku nefnist skuldabréf Bond.
Skuldabréf með breytilegum vöxtum
Ákveðin tegund skuldabréfa sem gefin eru út með vöxtum sem breytast í takt við breytingu á öðrum þáttum. Oft eru meðalvextir Seðlabanka Íslands notaðir sem viðmiðunarþáttur. Á ensku er slíkt skuldabréf nefnt Floating Rate Bond.
Skuldabréf með jöfnum afborgunum
Ákveðin tegund skuldabréfa þar sem höfuðstóll bréfsins er greiddur til baka með jöfnum afborgunum. Fer þá höfuðstóll lækkandi eftir því sem líður lánstíma. Vaxtagreiðslur eru hæstar fyrst en lækka svo með jöfnum hætti út lánstímann. Þessi tegund skuldabréfa nefnist oft afborgunarbréf. Á ensku eru skuldabréf með jöfnum afborgunum nefnd Amortization Bond.
Skuldabréf með jöfnum greiðslum
Ákveðin tegund skuldabréfa þar sem lán greiðist til baka með jöfnum greiðslum. Greiðsla af höfuðstól vex eftir því sem líður á lánstíma en greiðsla vaxta lækkar. Nefnast slík bréf annuitetsbréf.
Sjá nánar umfjöllun um jafngreiðslubréf.
Skuldabréf með vaxtamiðum
Ákveðin tegund skuldabréfs þar sem vextir greiðast reglulega yfir lánstíma en á síðasta gjalddaga er, auk vaxta, upphaflega lánsfjárhæðin endurgreidd. Afborganir í gegnum lánstímann eru því eingöngu vaxtagreiðslur og lokagreiðslan vextir fyrir það tímabil auk höfuðstól lánsins. Á ensku nefnist slíkt skuldabréf Coupon Bond.
Skuldabréfasafn
Svipar til hlutabréfasafns en gildir um skuldabréf. Fjárfestir sem á margar tegundir skuldabréfa geymir þau í skuldabréfasafni sínu og reynir að dreifa fé sínu með það að markmiði að lágmarka áhættu en hámarka ávöxtun. Á ensku nefnist slíkt safn skuldabréfa Bond Portfolio.
Skuldabréfasjóður
Ákveðin tegund fjárfestingasjóðs sem eingöngu fjárfestir í skuldabréfum og nefnist Bond Fund á ensku.
Söluhagnaður
Þegar verðbréf eða annað er keypt á ákveðnu verði og selt á hærra verði myndast svonefndur söluhagnaður. Hafi góður hagnaður gefist af sölu tiltekinna verðbréfa er sagt að ávöxtun hafi verið mikil. Hjá fjárfestum sem fjárfesta til skamms tíma er markmiðið að ná sem mestu söluhagnaði á hverjum viðskiptum og er þeim síður annt um arðgreiðslur hlutafélagsins til hluthafa, en það er önnur tegund ávöxtunar og nokkuð sem langtímafjárfestar hugsa talsvert um. Á ensku er söluhagnaður nefndur Capital Gain.
Söluréttur
Slíkur réttur getur átt við um ýmsa hluti. Í fjármálum gildir hann aðalelga um vörur, gjaldeyri eða verðbréf. Sölurétturinn merkir að selja þarf umræddan hlut á tilteknum degi eða fyrir þann dag á fyrirfram ákveðnu verði. Sá sem selur er bundin til þess að selja samninginn en sá sem kaupir getur valið á milli þess að ganga að kaupa samninginn eða ekki. Samningar um sölurétt geta gengið kaupum og sölum á markaði. Á ensku nefnist slíkur réttur Put Option.
Sölutrygging
Oft er það sem verðbréfafyrirtæki eða aðrir taka að sér að sölutryggja ákveðið magn hlutabréfa fyrir ákveðinn tíma og á ákveðnu verði. Slíkt gera fyrirtækin með því að selja bréfin eða kaupa þau sjálf. Tekur því fyrirtækið á sig áhættu fyrir þann sem á bréfin gegn þóknun. Á ensku nefnist slík trygging Underwriting.
Söluverð
Það verð sem kaupenda býðst að kaupa tiltekið verðbréf fyrir. Á ensku nefnist söluverð Sale Price.
Tilboð
Hefðbundið tilboð á verðbréfamarkaði er loforð sem þarf samþykki við svo að samningur komist á milli aðila. Tilboð geta verið munnleg eða skrifleg. Á ensku er tilboð Offer.
Trúnaðarupplýsingar
Í stuttu máli eru trúnaðarupplýsingar allar þær upplýsingar sem gætu haft áhrif á markaðsverð verðbréfa séu þær aðgengilegar öllum á markaði. Trúnaðarupplýsingar geta varðað útgefenda bréfanna, verðbréfin eða önnur atriði er þeim tengjast og eru ekki enn opinber. Hins vegar teljast upplýsingar ekki lengur trúnaðarupplýsingar hafi þeim verið komið til markaðarins með tilkynningu til kauphallar, en fyrr teljast þær ekki opinberar. Á ensku nefnast trúnaðarupplýsingar Inside Information.
Útgefandi skuldabréfs
Sá sem lætur af hendi skuldabréf og fær fyrir greiðslu eða önnur verðmæti er skuldbundinn til að standa skil á greiðslum, vöxtum og öðru samkvæmt samkomulagi sem skilgreint er á skuldabréfinu. Á ensku er útgefandi skuldabréfs Bond Issuer.
V/H hlutfall
Sýnir hversu mörg ár hagnaður félags væri að skila aftur ígildi markaðsverðs miðað við hagnað síðasta rekstrarárs. Formúla fyrir V/H gildi er: VH gildi = Markaðsverð hlutar / hagnaður á hlut. Á ensku nefnist hlutfallið Price/Earning Ratio.
V/I Hlutfall
Sjá Q-hlutfall.
Valréttur
Þegar rætt er um valrétt eða valréttarsamninga er átt við afleiðusamning sem veitir kaupenda kaup- eða sölurétt á tiltekinni eign á fyrir fram ákveðnu verði sem nefnt er valréttargengi. Kaupin eða salan verða að fara fram á fyrirfram ákveðnum tíma eða innan ákveðinna tímamarka. Mótaðili samningsins, útgefandi hans, ber hins vegar allar skyldur allan þann tíma sem samningurinn er í gildi. Útgefandi fær greitt sem nemur markaðsvirði valréttarins við upphaf samningstímans.
Valréttir eru mismunandi og er helstu tegundir amerískir samningar þar sem hægt er að innleysa samninginn á öllu tímabilinu, asískir þar sem verð samnings byggir á meðalverði undirliggjandi eigna yfir ákveðið tímabil og svo evrópskir samningar þar sem einungis er hægt að innleysa samninginn á innlausnardegi.
Valréttur á ensku er Option.
Vaxtavextir
Vaxtavextir nefnist það þegar vextir af fjárfestingu safnast upp og bera sjálfir vexti. Tökum sem dæmi fjárfestingu upp á 100 krónur sem skilar 20% ávöxtun á fyrsta árinu. Þá er eign fjárfestisins í lok ársins 120 kr. Ef næsta ár skilar einnig 20% ávöxtun verður eignin orðin 144 kr í lok þess árs. Þar af eru fjórar krónur vaxtavextir af vöxtum fyrsta ársins. Þannig er rætt um margföldunaráhrif vaxta og vaxtavaxta. Því fyrr sem byrjað er að fjárfesta því meiri verða vaxtavextir til lengri tíma litið. Á ensku nefnast vaxtavextir Compound Interest.
Velta
Velta segir til um hversu mikil viðskipti hafa átt sér stað með tiltekin hlutabréf. Ef velta er mikil merkir það annað hvort mikinn fjölda smærri viðskipta, fá viðskipti með stærri upphæðir eða sambland af þessu tvennu. Mjög breytilegt er á milli félaga hversu mikil veltan er en gagnlegt er að skoða veltutölur í samhengi við gengi félags og sjá þannig hvenær mikið er að gerast með bréf félagsins og hvenær ekki. Á ensku nefnist velta á hlutabréfamarkaði Volume.
Verðbil
Munur á kaup- og sölutilboði nefnist verðbil. Reglulega er talað um þetta verðbil á hlutabréfamarkaði því það segir til um hversu mikið skilur að þá sem vilja selja bréf sín og þá sem vilja kaupa sömu bréf. Ef verðbil er þröngt ber lítið í milli og öfugt. Hægt er að hagnast á því að spila á verðbil hlutabréfa. Á ensku nefnist verðbil Spread.
Verðbréf
Hin fræðilega og nákvæma skýring á verðbréfum er að til verðbréfa teljist hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum. Í daglegu tali er hins vegar oftast átt við hlutabréf eða skuldabréf þegar rætt er um verðbréf. Á ensku eru verðbréf Securities.
Verðbætur
Verðbætur eru sú upphæð sem bætist við afborgun láns vegna verðtryggingar. Verðbætur bætast einnig við höfuðstól lánsins þegar vextir eru reiknaðir. Sá sem hefur lánað peninga með verðtryggingu fær greiddar verðbætur frá þeim sem tók lánið. Verðbætur eru reiknaðar út frá verðlagsþróun og er yfirleitt miðað við vísitölu neysluverðs. Ef verðlag hækkar þarf sá sem tók lánið að greiða verðbætur sem er krónutala sem skilar þeim sem lánaði sömu upphæð til baka miðað við hversu mikið verðlag hefur hækkað frá því að lánið var veitt. Þannig er sá sem lánaði tryggður fyrir verðlagshækkunum. Hvað þann varðar sem tók lánið þá hefur hann hag af því að verðlag sé sem stöðugast eða verðhjöðnun verði en þannig helst greiðsla hans stöðug eða lækkar. Á ensku eru verðbætur Indexation.
Verðbólga
Þegar almennt verðlag hækkar með stöðugum hætti er talað um að verðbólga sé til staðar. Orðið er vísun í að verð hækki og sé þannig eins og bólga. Andstæða verðbólgu er verðhjöðnun. Hagstofan tekur saman vísitölu neysluverðs, sem notuð er til að meta verðbólgu. Á ensku nefnist verðbólga Inflation.
Verðhjöðnun
Þegar almennt verðlag lækkar með stöðugum hætti er talað um að verðhjöðnun sé til staðar. Orðið vísar til þess að verðbólgan sé nú að hjaðna. Andstæða verðhjöðnunar er verðbólga, sem er mun algengari. Hagstofan tekur saman Vísitölu neysluverðs og heldur utan um mælingar á verðbólgu. Á ensku nefnist verðhjöðnun Deflation.
Verðmyndun
Verðmyndun vísar til þess hvernig verð á hlutabréfum myndast. Verð er talið endurspegla væntingar þeirra sem kaupa og selja bréf á markaði. Ef til dæmis verð á súráli hækkar í heiminum er það líklegt til að auka kostnað álfyrirtækja og þar með draga úr hagnaði þeirra. Þannig er líklegt að verð á hlutum álfyrirtækja lækki við slíkar fréttir. Þannig hafa fréttir áhrif á verðmyndun hlutafélaga. Á ensku er verðmyndun Price Formation.
Verðtrygging
Í flestum þjóðfélögum er verðbólga viðvarandi vandamál þar sem verðlag hækkar með tímanum. Verðbólga er mælikvarði á hækkun verðlags. Í slíku þjóðfélagi kosta hlutirnir alltaf meira eftir því sem tíminn líður og pottur af mjólk kostar fleiri krónur að ári en hann gerði í dag. Í ljósi þess gera þeir sem lána fé þá kröfu að þeir fái til baka upphæð sem er svipuð að kaupmætti þeirri sem þeir lánuðu. Til að reikna út þá upphæð er miðað við tiltekinn mælikvarða, t.d. vísitölu neysluverðs, og uppreiknað í takt við vísitöluna.
Sem dæmi má nefna að ef verðtryggt lán að upphæð einni milljón er tekið í dag til tíu ára og verðbólga reynist vera 10% á tímabilinu þá þarf sá sem tók lánið að endurgreiða 1,1 milljón króna. Ekki er tekið tillit til greiðslu vaxta.
Ekki er þó um algjört tap þess sem greiðir af láninu að ræða því þegar verðbólga er til staðar á sér stað víxlverkun launahækkana og verðlagshækkana. Laun skuldara eru því hærri í krónum talið eftir 10 ár heldur en nú þegar hann tekur lánið. Þó er misjafnt hvernig þessi víxlverkun kemur til í hagkerfinu. Sumir hækka í launum umfram verðbólgu á meðan aðrir hækka í launum minna en sem nemur verðbólgu. Þannig færir verðbólga til verðmæti á ósanngjarnan hátt og er mein sem hagstjórn flestra ríkja miðar að því halda niðri.
Á ensku er verðtrygging Price Indexation.
Vextir
Fræðileg skilgreining vaxta er leiga sem greidd er fyrir afnot af peningum. Sá sem á peninga þarf að hafa hag af því að lána þá því ella gæti hann notað peningana í annað þar sem þeir bæru ávöxt. Vextir miðast við upphæð láns og þann tíma sem lánið er tekið til. Oftast er talað um vexti sem ákvena prósentu af höfuðstól lánsins. Vextir á ensku eru Interest Rate.
Veð
Þeir sem lána fé vilja í flestum tilvikum hafa eitthvað verðmæti til staðar sem þeir geta gengið í fari svo að sá sem tekur lánið standi ekki við skuldbindingu sína. Til dæmis eru fasteignalán oftast tryggð með veði í húsnæði. Komi til vanskila getur sá sem lánaði selt húsnæðið og fengið þannig fé sitt til baka. Veð er Collateral á ensku.
Yfirtaka
Sú aðgerð þar sem fjárfestir, hópur fjárfesta eða fyrirtæki kaupir aðra hluthafa út úr hlutafélagi nefnist yfirtaka. Til eru margar tegundir og útfærslur af yfirtökum og fer það eftir því hvernig yfirtökuna ber að, hverjir standi fyrir henni, o.s.frv. Á ensku nefnist yfirtaka Takeover.
Yfirtökuskylda
Samkvæmt lögum myndast yfirtökuskylda þegar hluthafi eða hann í samráði eða samstarfi við aðra ráða yfir 40% eignarhlut eða meira. Yfirtökunefnd tekur afstöðu til þess hvort slík skylda hafi myndast eða ekki. Sé skyldan til staðar ber þeim hluthöfum sem eiga 40% eða meira að kaupa út þá hluthafa sem fyrir eru í félaginu. Ákveðið gengi er notað við yfirtöku og miðast það oftast við meðalverð síðustu 5 daga sem viðskipti voru með félagið þó þekkist að yfirtökuverð sé hærra en markaðsgengi á þeim tíma. Gengi við yfirtöku fer eftir eðli yfirtökunnar og öðrum áhrifaþáttum.
Þinglýsing
Hið opinbera þinglýsir margs konar samningum og gjörningum en slíkt er í höndum sýslumanna. Þinglýsing merkir að opinber skráning réttinda hafi átt sér stað og á oftast við eignarrétt eða veðrétt. Þannig er fasteignalánum þinglýst og veðbókarvottorði sömuleiðis. Þannig er það staðfest af hinu opinbera hver hefur veð í viðkomandi eign og í hvaða röð. Á ensku er þinglýsing Register.